…Barnið mitt missir þær eftir nokkur ár hvort sem er.

Ég var spurður að þessari spuringu, af foreldra 5 ára drengs, um daginn. Jú það er rétt, barantennur eiga sér skamman líftíma og detta fyrir táningsaldur. Hinsvegar er góð tannheilsa lykilatriði fyrir eðlilegan vöxt og þroska barns.
 

Næring og vöxtur

 
Börn þurfa að nærast til að vaxa eðlilega. Til þess að tyggja fæðu þurfa börn tennurnar. Að tyggja með niðurbrotnum, slitnum og sýktum tönnum er erfitt og vont. Börn sem geta ekki tuggið matinn eðlilega sækja í kolvetnaríka fæðu, sem er oft einfaldari að mylja niður. Þetta mataræði bætir ekki lélega munnheilsu, þar sem hún örvar tannskemmdir ennfremur vegna mikils sykurinnihalds.
 

Sýkingar og tannmissir

 
Tannskemmdir af völdum baktería stækka með tímanum ef þær eru ekki meðhöndlaðar. Ef þessar bakteríur komast inn í rætur barnatanna, valda þær sársaukafullum sýkingum. Svona sýkingar geta valdið óafturkræfanlegum skaða á fullorðinstönnum, og orðið lífshættulegar sé ekkert aðhafst.
 
Undir eðlilegum kringumstæðum koma fullorðinstennur upp skömmu eftir að barnatennur detta. Ef barnatönn er farin áður en fullorðinstönn er tilbúin til að koma upp, færast hinar barnatennurnar saman og loka bilinu. Þegar fullorðinstönn er loks tilbúin til að koma upp, verður lítið sem ekkert pláss fyrir hana.
 
Ef barnatennur fá ekki að detta af sjálfsdáðum, heldur þarf að fjarlægja þær, getur það haft verulega slæmar afleiðingar. Ekki verður nægt pláss fyrir fullorðinstennurnar og koma þær upp þar sem pláss fæst. Bæði veldur það útlitsgalla og getur haft áhrif á bitstöðu. Þetta verður til þess að meiri líkur eru á því að barnið þurfi að leita til tannréttingarsérfræðings.
 

Skemmdir í fullorðinstönnum

 
Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að skemmdir séu af völdum baktería. Í munni barna sem þjást af tannskemmdum eru margfalt fleiri bakteríur en í heilbrigðum munni. Um 6 ára aldur fara börn að missa barnatennur og fá fullorðinstennur. Bakteríur sem eru þegar til staðar í munni ráðast þá á fullorðinstennurnar og valda þar skemmdum sem eru óafturkræfar.

 

Rangt er að halda fram að barnatennur og umhirða þeirra skipti engu máli. Hér er grein um það hvernig er best að koma í veg fyrir skemmdir í barnatönnum.

 

Spurningar? Vangaveltur? Hafðu samband við okkur í gegnum email.